3.10.2025 | 08:27
Orð skulu standa
Dapurlegt er að verða vitni að vinnubrögðun Alþingis og þeim grímulausu árásum, sem á hinar dreifðu byggðir landsins mega þola, af hálfu núverandi ríkisstjórnar.
Austurlandsfjórðungur er t.d. afgangsstærð þegar kemur að framkvæmdafé frá Alþingi og hann er ítrekað niðurlægður af þeim sem hafa húsbóndavaldið á Alþingi hverju sinni.
Ósannur áralangur þvættingur um að Fjarðaheiðagöng þjóni einungis fámennu byggðarlagi á útnára landsins, sem skilja má þannig, að þangað ætti enginn vitiborinn maður erindi. Það hefur því miður fest sig í sessi hjá illa upplýstum lýð landsins.
Þetta er alveg í takt við hróp andstæðinga á sínum tíma, gegn stóriðjuáformum á Austurlandi. Í því samhengi töldu nokkrir að Austfirðingar vildu drekkja öllum gæsunum á hálendinu vegna virkjanaframkvæmdanna. Þar og að auki var þeim borið það á brýn að ætla að hrekja hreindýrin af burðarsvæði sínu og hefðu uppi áform uppi um að leifa að sökkva Snæfellinu í uppistöðulóninu. Sem betur fer gekk það ekki eftir, enda illframkvæmanlegt, þar sem toppur Snæfellsins 1833 metra yfir sjó (m.y.s) á meðan yfirfall Hálslóns er 625 m.y s. En undir slíku bulli þurfa Austfirðingar þráfaldlega að sitja.
En svo tekur steininn úr þegar illa upplýstur innviðaráðherrann, Eyjólfur Ármannsson, mætir til Egilsstaða og telur sig óbundinn af ákvörðun og samþykktum Alþingis og slengir framan í fundargesti nýrri nálgun á forgangsröð jarðganga á Íslandi. Ekki var annað að skilja á fundargestum en að ráðherra væri gjörsamlega ókunnugt um að Seyðisfjörður væri önnur mesta gátt ferðamanna til Íslands, t.d. með að tengja Ísland við Evrópu um þjóðveginn E39. Smyril-Line er búin að sigla í fimmtíu ár milli Seyðisfjarðar frá Evrópu með frakt og farþega og að undanförnu hefur komum skemmtiferðaskipa fjölgað verulega. Tugþúsundir ferðamanna fara um Seyðisfjarðarhöfn árlega.
Í því ljósi þarf að fjalla um Fjarðaheiðargöng og af sanngirni og á heiðarlegan hátt. Það hefur ítrekað verið fjallað um nauðsyn Fjarðaheiðarganga af þingmönnum og ráðherrum, sem telja sig menn orða sinna. Margsinnis hefur göngum verið lofað og það skjalfest í samgönguáætlun, sem er þungavigta skjal frá Alþingi og ber að virða. Hvers eiga Austfirðingar að gjalda þegar kemur að slíku sambandsleysis milli orða og athafna þingheims og framkvæmdavaldsins? Hvers geldur virðing Alþingis vegna slíks vingulsháttar?
Svo að stóra samhenginu. Engum heilvita manni dettur í hug að tengja saman fjárveitingar á Keflavíkurflugvöll við íbúafjölda í Sandgerði. Slík nálgun er jafn fráleit og að tengja saman Fjarðaheiðargöng við íbúafjöldann á Seyðisfirði.
Er orðið tímabært að hefja umræðuna um frjálst Austurland?
![]() |
Snýst ekki um lýðræði heldur peninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |