Undraveröld vindmyllugarða

Það er mik­il vakn­ing í kring­um orku­skipti og mik­il áhersla lögð á að nýta svo­kallaða græna orku. Stöðugt er að verið ham­ast við að heilaþvo íbúa Íslands um að hin full­komna hreina orka komi frá vindorku­ver­um. Að sögn kemst eng­in önn­ur raf­orku­fram­leiðsla ná­lægt þeirri hvítþvegnu og hreinu orku sem vindork­an er. Þetta er sagt mat þjóðar­inn­ar, en sú full­yrðing er oft­ast of­notuð og inni­stæðulaus.

Það er sér­stak­lega at­hygl­is­vert hve áhuga­sam­ir um vindorku ein­blína þröngt á staðar­val vind­myll­ug­arða. Þar telja þeir að lands­byggðin sé frá­bær staðsetn­ing fyr­ir slík verk­efni al­veg óháð fjar­lægðinni frá fram­leiðslu­stað að orku­sveltu sam­fé­lagi. Mörg ónýtt tæki­færi eru til við orku­öfl­un í vatns­föll­um víða um land og orku­gef­andi vatns­föll skila af sér vist­vænni raf­orku, svo þeirri staðreynd sé haldið til haga. Auk held­ur er viður­kennt að það er best að nýta alla orku sem næst fram­leiðslu­stað til þess að lág­marka tap í lín­um, sem er fylgi­fisk­ur þess að flytja raf­ork­una um lang­an veg.

Í Reykja­vík er mik­il þörf á orku. Þaðan er orku­mál­um þjóðar­inn­ar stjórnað en þar hug­kvæm­ist eng­um að nýta eitt besta svæði Íslands fyr­ir vindorku­fram­leiðslu. Það svæði hef­ur þann kost að þar gætu áhuga­sam­ir um vind­myll­ug­arða barið slíkt verk­efni aug­um í hvert sinn sem skyggni leyfði. Þetta svæði verður aldrei nýtt und­ir stofn­vegi, skóg­rækt, bygg­ing­ar né at­vinnusvæði. Fugla­líf er fá­brotið og mýs, ref­ir og göngugarp­ar yrðu ekki fyr­ir telj­andi trufl­un við að þvæl­ast um svæðið. Fljóts­dals­heiðin er met­in heppi­leg fyr­ir vind­myll­ug­arð og hæð yfir sjó er þar ekki tal­in fyr­ir­staða.

Því er lagt til hér að Esj­an, í land­námi Ing­ólfs Arn­ar­son­ar, verði nýtt í risa­stórt vind­myllu­verk­efni. Þar er vinda­samt, innviðir eru öfl­ug­ir á höfuðborg­ar­svæðinu og línu­lagn­ir frá fram­leiðanda til neyt­anda eru stutt­ar og það sama á við um aðkomu­leiðir.

Þegar Esj­an skart­ar sín­um feg­urstu vind­myll­u­görðum og svæðið orðið full­nýtt eru úti fyr­ir strönd­um höfuðborg­ar­inn­ar óbyggðar eyj­ar, sker og hafsvæði, sem ekki nýt­ast í annað þarfara en að út­víkka verk­efnið. Þegar skyggni til Esj­unn­ar er horfið verða slík­ir vind­myll­ug­arðar áfram sýni­leg­ir borg­ar­bú­um og ómþýður hljóm­ur þeirra mun fylgja þeim hvert kvöld inn í draumalandið. Hljóm­ur­inn er al­veg ókeyp­is auka­af­urð, a.m.k. þar til upp­götv­ast að hann er einnig sölu­vara.

Að lok­um er lagt til, að fyrr en já­kvæð niðurstaða af þess­um verk­efn­um ligg­ur fyr­ir verði ekki anað um land allt í stærri vindorkug­arða en sem nemi 9,9 MW og aðrar betri lausn­ir ekki til­tæk­ar.


Bloggfærslur 23. maí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband