Eldgos, varaflugvöllur og almannaheill.

Egilsstaðaflugvöllur er aðalflugvöllur fyrir Austurland og stórum áfanga var náð 1993, þegar endurbyggður flugvöllur á Egilsstöðum var tekinn í notkun með varanlegu slitlagi. Með þeim endurbótum urðu til nýir og spennandi möguleikar á margskonar notkunar flugvallarins fyrir Austurland allt og til vara fyrir aðra flugvelli og yfirflug.

Veðurfarslega og landfræðilega er Egilsstaðaflugvöllur vel staðsettur og aðflug að flugvellinum eitt það besta á landinu og samkvæmt úttekt sérfræðinga er hann ákjósanlegur varaflugvöllur, þar sem andstæður í veðurfari eru mestar milli flugvalla og áreiðanleiki áætlunarflugs yfir 99%.

Nú hefur náttúran á Reykjanesi látið að sér kveða og ítrekað hefur verið bent á annmarkana að vera ekki með flugvöll á tryggu svæði, sem hægt er að nýta þá Keflavíkurflugvöllur hrekkur úr leik.  Nú hefur jarðfræðingur staðfest þessa annmarka og bent á hversu þröngt sjónsvið ráðamanna Íslands er gagnvart náttúruvá þeirri sem nú er í uppsiglingu.  Hvar dorma þingmenn kjördæmisins? 

Ekki er einasta við æðstu ráðamenn þjóðarinnar að sakast.  Stjórnendur ISAVIA leggja metnað sinn í að gera veg Keflavíkurflugvallar sem mestan án þess að huga nægjanlega að varaleiðum og að hann geti lokast fyrir ferðaþjónustuna í lengri eða skemmri tíma ef spár jarðfræðinga ganga eftir og verkefnum tengd atvinnulífinu er teflt í uppnám.  Raunalegast er þó að horfa stöðugt upp á ráða- og aðgerðaleysi stjórnenda heimafyrir, að hafa ekki döngun í sér að beita Innviðaráðuneytið þrýstingi um að ráðherrann komist ekki upp með að svíkja marggefin loforð um uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. 

Það verður býsna seint í rassinn gripið, að gera Egilsstaðaflugvöll fullgildan í aukin umsvif, þegar gos hindrar flug til Keflavíkurflugvallar.  Hvernig á að koma búnaði frá Keflavík þegar hraun flæðir yfir aðkomuleiðir?   

Nú þegar þarf að hækka þjónustustig Egilsstaðaflugvallar, bæta tækjakost til afgreiðslu flugvéla og sjá til þess að eldsneytisverð sé það sama um land allt. Strax þarf að byggja akstursbraut og stækka flughlaðið, skipulagið er tilbúið og ekkert að vanbúnaði að hefjast handa nú þegar.  Samhliða þarf að hefja ferli við að lengja flugbrautina og byggja nýja flugstöð.  Þetta eru verkefni sem ekki má bíða með að hrinda í framkvæmd.  Heimafyrir verða ráðamenn sveitarfélagsins og hraða ákvarðanatöku um staðsetningu nýrrar Lagarfljótsbrúar til að rýmka fyrir lengingu flugvallarins.  Ákvarðanafælni sveitastjórnar í Múlaþingi verður að víkja, því tími framkvæmda er runnin upp. 

Það er engin tilviljun að Norræna sigli til Austurlands, því þangað er styst. Önnur stærsta millilandahöfn Íslands er á Austurlandi. Rétt er að nefna það að fluglínan frá Norður-Evrópu er jafnframt styst til Austurlands. 

Með því að auka millilandaflutninga við Austurland sparast tími, peningar og kolefnissporið lækkar.


Bloggfærslur 6. ágúst 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband