25.9.2021 | 08:38
Trúarbragðastríðið um nýja stjórnarskrá
Merkilegur er málflutningur þeirra sem vilja nýja stjórnarskrá, - strax. Ekki einasta hvað það fer mikið í taugarnar á þeim að sú gamla sé þýdd og staðfærð að íslenskum veruleika úr dönsku, heldur tala þeir niður Stjórnarskrána án þess að vita um innihald hennar að neinu marki.
Ekki síst er það magnað, að sama grúppan er alveg föst á því að taka upp allar greinar, sem frá ESB koma, og þýða þær beint án þess að nokkur velti fyrir sér hve margar greinar þaðan eiga illa við okkar samfélag, - sumar bara alls ekki.
Að skýla sér á bakvið samþykktir stjórnlagaráðs, sem stofnað var til undir skuggalegum formerkjum og öll vinnubrögð þess í takt við það. En náttúrulega var það bara enn eitt ruglið í samfélaginu. Svona klúbbur getur ályktað út og suður án þess að það hafi aðrar afleiðingar en að vera vettvangur skoðanaskipta. Það er hins vegar athyglivert að gefa sér það að Alþingi beri að taka þetta fyrir og nýti sem nýja stjórnarskrá. Af sinni sérstöku hógværð telur þessi klúbbur sig vera fulltrúa meirihluta þjóðarinnar. Það jafnast fátt á við slíkt lítillæti.
Þessi klúbbur skirrist ekki við að nota blekkingar og beinlínis lygar við að koma sínu á framfæri og svo kyrjar söfnuðurinn í kór og lítur á skoðun sína sem heilagan sannleik.
Þetta eru trúarbrögð, hver nýta sér heimatilbúna útfærslu á sannleikanum.