9.5.2011 | 21:59
Tveggja hreyfla þýsk herflugvél ferst í Reyðarfirði á stríðsárunum
Í hildarleik seinni styrjaldarinnar fórust margir ungir menn í baráttunni fyrir föðurlandið. Þrátt fyrir að vera ekki beinn þáttakandi í styrjaldarátökunum, drógust íslendingar inn í baráttu stórveldanna og skyndilega varð Ísland einhvers virði í augum alheimsins.
Þjóðverjar vildu komast þangað, en bretar urðu fyrri til og hernámu landið, eins og lesa má um viða, m.a. á sérvef ruv, en þar segir:
Hinn 10. maí 1940 urðu þáttaskil í sögu Íslands, en aðfaranótt þess dags steig breskur her á land í Reykjavík. Í Evrópu hafði heimsstyrjöldin síðari geisað í átta mánuði. Þjóðverjar höfðu ráðist inn í Pólland, hernumið Danmörku og Noreg og innrás vofði yfir Niðurlöndum og Frakklandi. Það var Bretum mikil nauðsyn að Ísland félli ekki undir þýsk yfirráð, en það hefði haft slæm áhrif á hernaðarstöðu þeirra á Atlantshafi. Ísland stóð ekki lengur utan hringiðu heimsviðburðanna.
Hingað voru send skip og kafbátar auk þess sem flugvélar þýska heimsveldisins voru á ferðinni og gerðu nokkurn óskunda m.a. hér austan lands. Nokkrar þessara véla voru skotnar niður viðsvegar um land og í flestum tilfellum fórst áhöfnin með vélum sínum.
Ein þessara véla kom fljúgandi inn á Austurland og vegna dimmviðris við austurströndina fipaðist flugmaðurinn og flaug í Krossanesfjallgarðinn rétt við Snæfuglinn og leifar hennar liggja á svokölluðm Valahjalla.
Áhöfnin fórst öll og var jarðsett á Reyðarfirði, síðar voru lík þeirra grafin upp og flutt til Reykjavíkur og liggja í grafreit þjóðverja í Fossvogskirkjugarði.
Flugvélin var af gerðinni Heinkel HE111 og var með bækistöð á herflugvellinum við Gardermoen, sem er núna aðalflugvöllurinn Norðmanna við Osló.
Enn er hjúpuð dulúð tilgangur ferðarinnar. Var þetta könnunar og njósnaflug? Hver var síðasti viðkomustaðurinn í Noregi. Var það Sola flugvöllur við Stavanger, eða var hún að koma frá Værnes flugvelli við Þrándheim?
Vélin var ný þegar hún fórst. Heimamenn sóttu í gott efni til að gera við tæki og tól og smíða nýja hluti. Svona vandaða bolta höfðu menn ekki handleikið fyrr. Ýmsa nytsama hluti tóku menn til handagagns og nokkrir hafa skilað sér á Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði. Enn eru margir hlutir til viðsvegar um land. Hér með eru menn hvattir til að senda þá á safnið, þar sem þeir verða varveittir til frambúðar innan um minjar frá þessum tíma.
Í nokkrum komandi pistlum mun ég fjalla frekar um þennan atburð og draga fram nokkrar staðreyndir og sögulegar skýringar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.