Eru prestar að verða úreltir?

Allir vita að það er ljótt að gera "dodo" áður en prestur er búinn að segja að það sé í lagi og hann segi að Guð sé búinn að samþykkja gjörninginn. Þegar presturinn hefur lokið sér af, eru hjónin send út á Guð og gaddinn.  Prestar hafa gleymt að gæta hagsmuna hjóna, sem ganga í það heilaga hjá þeim. Það er engin ábyrgð tekin á gjörningnum. Prestar eru hins vegar mjög uppteknir af eignum prestasjóðs og hlunnindum brauða sinna. Þeir eru mjög passasamir við það að enginn nái neinu af veraldlegum gæðum þeirra. 

Það er nöturlegt að hagsmunagæslumenn hjónabandsins, prestarnir, skulu ekki sinna betur einstaklingunum sem ganga í heilaga hjá þeim og að þeir skulu ekki hafa frumkvæði að því að borin sé virðing fyrir hjónaböndunum og viðurkennd ákveðin forréttindi þeim til handa. Það er umhugsunarvert hverjir eiga að standa vörð um að hjónabandið, ef ekki prestarnir. Þeir ættu að standa vörð um að hjónabandið sé sá trausti hornsteinn samfélagsins, sem það hefur verið í aldanna rás. 

Þannig hafa hjónaböndin verði "skattlögð" meira en en þeir sem syndga og stunda lauslæti og saurlífi. Einstætt foreldri fær gjarnan meira út úr sameiginlegum sjóðum. Þeir einstæðu ganga einnig fyrir í ýmsum málum, eins og t.d. á barnaheimilum. Það hefur sýnt sig að hjónabandið er fjárhagslega óhagkvæm eining.  Það er níðst á þeim sem ganga í hjónaband eða skrá sig í sambúð.  Hjón skilja af fjárhagslegum ástæðum, einnig eldri borgarar.  Það er komin "skekkja" í samfélagið, hjónabandinu í óhag, sem þarf að laga.

Það er ef til vill tímabært að endurskoða þessi mál og leysa presta undan þeirri kvöð að sjá um vígslu hjóna og eftirfylgni um að þau haldi.  Er ekki runninn upp sá tími til að skoða hvort ekki eigi að fækka brauðum og senda presta til annarra verka? Ríkið gæti síðan stofnað nýtt embætti til að sinna þessu sértæka verkefni. Það þyrfti ekki nema einn starfsmann til þess halda utan um lagasetningar er varðar hjúskap og sambúð. Hann gæti borið titilinn - "Umboðsmaður hjóna og sambýlinga".

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Ritningin segir okkur að hugsa vel um ekkjur og útlendinga. Hvers vegna?  Jú trúlega búa þessir hópar við bágari kjör á einhvern hátt, alla vega á þeim tíma sem að Biblían var rituð.

Að vera ein/n sem fyrirvinna fjölskyldu, er ekki sama og að vera tveir. Það stendur þó alltaf til boða að nýta persónuafslátt hvors annars, ef ekki bæði hjónin vinna úti.

Ég þekki það af eigin raun að vera einstæð móðir í 9 ár og ganga síðan í hjónaband fyrir rúmum 13 árum. Ég veit að sá afsláttur sem að einstæðir foreldrar fá af leikskólagjöldum, ásamt forgangi að leikskólaplássi, er þeim lífsnauðsynlegur, ef viðkomandi á að geta komist af.

Ég man bara að ég náði nánast aldrei endum saman fjárhagslega, þrátt fyrir "alla þessa peninga" sem að ég fékk hjá Ríkinu. Ég gat ekki átt bíl og rekið, þannig að bíllinn minn var fjallahjól, sem að var reyndar mjög heilsusamlegt. Ég gat ekki farið neitt út á kvöldin, öðruvísi en að borga fyrir það peninga, sem að ég átti mjög lítið af. Ekki skildi ég son minn eftir einan. Nei, þetta er mikil rangtúlkun að einstæðir foreldrar hafi það betra en hjón.

Hins vegar eru til einstaklingar sem að misnota sér kerfið, skrá sig eina, en eru það ekki í raun. En það gefur ekki rétta mynd af kerfinu, það skekkir bara myndina. Þar er verið að misnota sér samfélagsþjónustu og ekki hugsað út í afleiðingarnar.

Við þurfum ekki að fara fram á að fá meiri bætur frá ríkinu, þá meina ég hjónafólk, sem er við fulla heilsu. Við þurfum að fá hækkun á persónuafslættinum og afnema tekjutengingu bóta hjá hjónum, sé um örorku eða ellilífeyrir að ræða.  

Hinn almenni verkamaður og aðrir láglauna hópar mættu alveg við því að fá ríflega launahækkun í krónutölu, ekki prósentum. Fasta upphæð sem einungis ætti við lægstu launin.  

Að menn geti réttlætt það að fara þá leið, að leika á kerfið, með því að skrá sig eina, verandi í sambúð, skaðar þá sem að virkilega þurfa á þessari aðstoð að halda. Þetta er ekki leiðin og að hrópa eftir hærri bótum fyrir heilbrigða einstaklina í skráðri sambúð, eða hjónabandi er algjör þvæla að mínu viti.

Hærri laun fyrir þá lægst launuðustu, þannig að menn geti þá valið um hvort þeir eru meira með börnunum sínum, því það mun skila okkur heilbrigðari og sáttari einstaklingum út í lífið. Eru börnin okkar ekki framtíðin?

Ég á tvo bíla í dag, að vísu gamla, en góða, hús og fyrirtæki, eiginmann, þrjú börn og hund. Ég veit það fyrir víst að ekki hefði ég komist á þennan stað hefði ég verið ein. Ég hef aldrei fundið hjá mér þörf að þurfa að svindla á kerfinu, en við erum ekki hálaunafólk, við lifum skynsamlega og allt telur þegar saman safnast.

Það sem menn/konur skorti í dag og hefur alltaf skort er friður. Ekki einhver friður, friður Guðs, hann er sá sem uppfyllir allar þarfir. Prestarnir mættu að mínu viti tala hærra um frelsið sem að Kristur Jesú bíður okkur og sá friður sem hann færir, sem er æðri öllum skilningi. Guðs Ríki er hér sagði Jesú Kristur, meðtak boðskap hans og hann mætir þínum þörfum.

G.Helga Ingadóttir, 29.12.2007 kl. 22:34

2 identicon

Prestar eru úreltir !!!  Prestar eiga ekki að gæta hagsmuna hjóna.  Hjón eiga að gæta sinna hagsmuna sjálf, ekki einhverjir utanaðkomandi aðilar og alls ekki prestar.  Af hverju ættu prestar að gæta hagsmuna fólks ?  Það er mín skoðun að prestar séu tímaskekkja og eigi ekki heima í nútíma 21. aldar.  Ég skil vel að almúgur fyrri alda sem lifði við algjöra fátækt og ömurlegheit, og þekkti ekki annað, skuli hafa trúað á að betra líf biði þeirra ef það tilbiði Guð og Jésúa Krist guðs son almáttugan, og hlustað á áróður þessara manna sem vissi ekki betur.  En af hverju í ósköpunum er vel upplýst fólk á okkar tíma að elta þessa endaleysu.  Prestar og aðrar helgislepjur Kirkjunnar eiga ekkert erindi í líf okkar Það er vel tímabært að endurskoða þessi mál, eins og þú stingur uppá.  Mín skoðun er sú að  skilja eigi að ríki og Kirkju að og öll hennar verkefni eigi að færa til þess menntaðra einstaklinga sem hæfir eru til þeirra starfa, ekki preláta sem heilagleikinn lekur af og eru ekki hæfir til þess sem þeir eru attir út í, eins og störf kennara, sálfræðinga, geðlækna og félagsráðgjafa. Kv/Óli Ara.

Óli Ara (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 00:34

3 identicon

Gleðilegt nýtt ár og segðu þig úr kirkjunni!

http://www.thjodskra.is/media/eydublod/trufelag.pdf

Óli Ara (IP-tala skráð) 30.12.2007 kl. 02:09

4 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þakka innlitið G. Helga og þína hlið á málinu.  Ég skil vel vandamál einstæðra foreldra og vandamálin sem því er samfara.   Það breytir þó ekki skoðun minni á því að, að það á að leysa málin á annan hátt, en að veita þeim forgang fram yfir þá sem vilja búa saman.  Við vitum það að misjafn sauður er í mörgu fé og alltaf einhverjir sem misnota það sem verið er að reyna að gera.  Málið er að það þarf að endurskoða öll mannanna verk og oft þarf að stokka spilin upp á nýtt og finna betri lausn.  Líka í þessu tilfelli.

Börnin líða oft fyrir það að búa með öðru foreldrinu, á einn eða annan hátt.  Þarfir barna eru svipaðar, hvor sem þau eru af ríku foreldri komin eður ei.  Það þarf að skilgreina fjárhagslegar þarfir barnsins og það foreldri, sem ekki eru í samvistum við barn (börn) sitt, verður að taka meiri fjárhagslegar skuldbindingar á sig en getið er í núverandi lögum og þær greiðslur ber einnig að tekjutengja.  Samfélagið á síðan að hjálpa til við að uppfylla það "gat" sem myndast hjá hinum sem ekki hafa nægjanlegt fé milli handa. 

Það gengur hins vegar illa að koma því á í samfélagi okkar sem stjórnast fyrst og fremst af markaðslögmálunum.  Við erum rík þjóð og eigum að geta komið okkar minnstu bræðrum og systrum til hjálpar. 

Það er líka hugsanleg lausn, að fólk flytji út á land.  Þar eru starfandi vannýttir leikskólar, grunnskólar og fleiri grunnþjónusta eru til staðar og vegalengdir það litlar að ekki þarf að eiga bíl til að komast milli staða og húsnæði á lágu verði.  Það væri nær fyrir samfélagið að greiða fyrir því, að fólk vildi nýta sér það sem er í boði þar, í stað þess að fjalla sífellt um flutningsstyrki þeim til handa sem vilja flytjast burt af landsbyggðinni.

Benedikt V. Warén, 30.12.2007 kl. 12:20

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Óli frændi, gleðileg jól og nýtt ár.

Þó ég sé ekki sáttur við þjóðkirkjuna og presta, þá er ekki þar með sagt að ég segi mig úr henni í bráð, þó ég verði að viðurkenna að oft hef ég íhugað það.  Það er bara ekkert betra í boði og fyrir mig og þar sem ég þarf að hvort eð er að greið upphæð eitthvað, þá er alveg eins gott að handa því í þjóðkirkjuna enn um sinn.  Þeir eru allavega með "starfsstöð" í minni heimabyggð.  Þakka samt ábendinguna. 

Flest trúarbrögð eru þannig, að þau eru að boða siðfræði og hnykkja á því góða í samskiptum manna.  Það eru síðan mannskepnan sem tekur sig til og (mis-)túlkar það sem stendur í fræðunum, oft mjög frjálslega, svo ekki sé nú meira sagt.

Benedikt V. Warén, 30.12.2007 kl. 14:03

6 identicon

Gleðilegt árið frændur. 

Mikið er það skrýtin tilfinning að vera sammála tveimur Gilsungum, og það sama daginn!

En svona er það, mér finnst að vísu ekki að prestar eigi að gæta hagsmuna hjóna, en þeir eru að gera sig úrelta margir hverjir með þröngsýni og  skorti á umburðarlyndi  gagnvart öðrum en sjálfum sér.  Síðan er það auðvitað að verða tímaspursmál hvenær maður segir sig úr þjóðkirkjunni.  Þetta er einfaldlega ekki nógu byltingarsinnuð eða gagnrýnin stofnun fyrir mig, fyrir nú utan illskiljanlega andstöðu við breytingar.

Erlendur (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband