Hvernig fóru menn að áður en klukkan var fundin upp?

Þrælar klukkunnar eru enn að tjá sig um að hræra í klukkunni vor og haust.  Þetta er nauðsynlegt til að "lífsklukkan" og okkar tilbúna tímatal virki saman.  Hvílíkt rugl.  Það að rugla í klukkunni er tóm tjara og er leið nokkurra einstaklinga til að leysa heimatilbúin vandamál, sem lítinn hluta samfélagsins hrjáir, eins og það að geta ekki komið sér í ró á skikkanlegum tíma á kvöldin. 

Kattareðlið í þessu fólki er algjört, sofa á daginn og vafra á nóttinni og ætlast síðan til að normalt fólk spili með.  Veit þetta fólk eitthvað um það,  hvers vegna þessi hringlandaháttur með klukkuna hófst?  

Hættum þessu kjaftæði.  Þetta er ekki vandamál, einungis verkefni að leysa í gegnum kjarasamninga með breytilegan vinnutíma í myrkasta skammdeginu.  Væri ekki nær að skoða að vinnudagurinn verði einungis sex klukkustundir í desember og janúar.   Ef vinnuframlag yrði kannað með þessu fyrirkomulagi, er ég sannfærður um að það kæmi flatt upp á marga, að afköst og vinnuframlag mundu nánast ekkert breytast.

Í skólum er þetta "vandamál" þekkt, en þar er það fyrst og síðast foreldravandamál.  Foreldrar hafa ekki sinningu á að senda börnin tímanlega í háttinn.  Í mörgum tilfellum fá þau að vaka eins og þau vilja, svo framarlega að það séu því engin læti samfara.  Þar kemur tölvunotkun sterk inn sem lausn fyrir pasturslitla foreldra, en það kemur hins vegar niður á framvindu barnanna í skólanum. 

Rannsóknir sýna að birtan frá tölvuskjánum ruglar "lífsklukku" barnanna verulega.  Með því að góna í tölvu langt fram á nótt, heldur heilinn að það sé bjartur dagur.  Og vegna þess að það er bjartur dagur, þá verða þau ekki syfjuð.  Líkaminn þarf samt sína hvíld og þessu tilfelli er hún tekin út að morgni dags.  Bent hefur verið á að taka sér bók í hönd og lesa að kvöldi dags, virkar betur á lífsklukkuna og er mun meira róandi en tölvu- og leikjagón.

Hins vegar ætti að vera hægt að nýta sér þennan eiginleika heilans og birtunnar frá ljósgjafa.  Það er þekkt í hænsnahúsum að plata hænurnar með því að "stýra sólahringnum" með ljósum í gluggalausu rými.  Þá er "dagurinn" og "nóttin" eftir því hvort ljós er kveikt eða slökkt.  Þannig er hænan plötuð til að verpa oftar.

Í ljósi ofanritaðs, legg ég til að allir morgnar í skólum, byrji á kröftugri tölvunotkun og ljósið frá skjánum notað til að plata heilann og telja honum trú um að það sé kominn bjartur dagur.  Skemmtilegt námsefni í tölvum og sjá, vandamálið með  morgundrungann verður nánast úr sögunni.  Foreldrar verða hvattir til að taka tölvur af börnum sínum fyir klukkan tuttugu og eitt á kvöldin og gerð ábyrg fyrir því að þau verði sofnuð klukkan tuttugu og tvö. 

Þau börn sem ekki lagast við þetta í skólanum, fái sérstakan eftirlitsbúnað sem sýnir klukkan hvað þau sofna og þá verður tekið á því vandamáli sérstaklega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Rannsóknir sýna að birtan frá tölvuskjánum ruglar "lífsklukku" barnanna verulega"

Hvaða rannsóknir eru þetta?

Ef rétt er gæti það mögulega skýrt hve undirritaður sofnar andskoti seint á kvöldin,sí hangandi í tölvunni ;-) 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2014 kl. 15:56

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Afsakaðu að ég tók ekki eftir innslagi þínu fyrr Bjarni.  Ég hef lesið nokkrar greinar um hvernig tölvur rugla svefn barna, en ég sjálfur skilgreindi það sem ruglun á "lísfklukkunni".

http://www.visir.is/tolvurnar-hafa-slaem-ahrif-a-svefn/article/2012120929740

http://www.sky.is/index.php/item/1657-t%C3%B6lvur-og-unglingar-t%C3%B6lvuf%C3%ADkn-og-%C3%A1hrif-of-mikillar-t%C3%B6lvunotkunar-%C3%A1-heilbrig%C3%B0i-og-n%C3%A1ms%C3%A1rangur-unglinga

Benedikt V. Warén, 15.1.2014 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband