Guðmundur Karl Erlingsson (Rebbi). Minning.

Það var leitt að geta ekki kallað Rebba vin sinn, bara kunningja. Sem vinur hefði ég átt að styðja betur við bakið á honum í glímu hans við óvættinn Bakkus, sem nú hefur lagt þennan öðling að velli. Þess í stað stóð ég til hlés og var áhorfandi á harmleik hans og fjölskyldunnar. Það er mér þó huggun harmi gegn, að fjölskyldan, samstarfsmenn hans og vinir lögðu á sig ómælda vinnu við að rétta af lífskompás Rebba, en því miður án teljandi árangurs. Mitt litla lóð hefði hvort eð er litlu skipt.

Kunningsskapur okkar Rebba hófst á sínum tíma í gegnum störf okkar hjá Flugmálastjórn Íslands, en fyrirtækið sá þá um rekstur allra flugvalla á Íslandi og stjórnun umferðar í og við landið. Nú heitir þetta fyrirtæki okkar Isavia og Flugmálastjórn Íslands er orðinn eftirlitsaðili með flumálum Íslands. Þá var hann ný útskrifaður flugumferðastjóri.

Alltaf var gott að leita til Rebba og alltaf var hann hress og þægilegur í öllu viðmóti. Aldrei voru nein vandamál á ferðinni, einungis verkefni að leysa. Eitt sumarið skutlaði ég honum frá Egilsstaðaflugvelli á Fáskrúðsfjörð á vélinni minni TF-DUK, þetta var síðdegis í kvöldkyrrðinni. Þar flugum við saman og virtum fyrir okkur fyrirheitnalandið okkar Austurland, baðað kvöldsólinni og aðeins glettnar gárur léku sér við sjóinn, annars hefðu austfirðirnir verið spegilsléttir. Á þessum tíma voru í lífi Rebba einungis léttar bárur, ekkert til að hafa áhyggjur af, eða það héldu allir.

Síðar skildu leiðir og hann varð flugmaður hjá Flugleiðum og síðan flugstjóri. Eina ferð fór ég með honum til London. Það var gaman að fá þetta sjónarhorn að sitja framm í og fylgjast með aðfluginu að Heatrow flugvelli seint um kvöld og virða fyrir sér ljósadýrð borgarinnar. Flugstjóri í þeirri ferð var Garðar Gíslason, en hann var flugstjóri á fyrstu farþegaþotunni sem lenti á nýjum Egilsstaðaflugvelli við vígsluna1993. Hann lést fyrir nokkrum árum.

Leiðir okkar Rebba lágu saman af og til, oftast á förnum vegi. Síðar áttum við saman sitt hvorn hlutinn í TF-KLO og lengi átti hann sér þann draum að geta notið þess að fljúga um og nýta sér þau forréttindi að sjá land sitt frá sjónarhorni fuglsins. Því miður rættist sá draumur hans ekki og stundirnar á flugvélinni urðu fáar og stopular.

Ég el með mér þann draum, að Rebbi fljúgi nú um í kyrrðinni og líti yfir sviðið og fái notið þess til fulls, sem hann missti af í þessari jarðvist.

Ég kveð Rebba með söknuði og votta fjöldkyldu hans, móður og systkinum alla mína samúð. Þau eiga minningu um góðan dreng með stórt hjarta, dreng sem vildi öllum vel, en lenti illilega utanvegar og komst ekki aftur inn á beinu brautina og var sjálfum sér vestur.

Vertu sæll kunningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband