Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Guðmundur Karl Erlingsson (Rebbi). Minning.

Það var leitt að geta ekki kallað Rebba vin sinn, bara kunningja. Sem vinur hefði ég átt að styðja betur við bakið á honum í glímu hans við óvættinn Bakkus, sem nú hefur lagt þennan öðling að velli. Þess í stað stóð ég til hlés og var áhorfandi á harmleik hans og fjölskyldunnar. Það er mér þó huggun harmi gegn, að fjölskyldan, samstarfsmenn hans og vinir lögðu á sig ómælda vinnu við að rétta af lífskompás Rebba, en því miður án teljandi árangurs. Mitt litla lóð hefði hvort eð er litlu skipt.

Kunningsskapur okkar Rebba hófst á sínum tíma í gegnum störf okkar hjá Flugmálastjórn Íslands, en fyrirtækið sá þá um rekstur allra flugvalla á Íslandi og stjórnun umferðar í og við landið. Nú heitir þetta fyrirtæki okkar Isavia og Flugmálastjórn Íslands er orðinn eftirlitsaðili með flumálum Íslands. Þá var hann ný útskrifaður flugumferðastjóri.

Alltaf var gott að leita til Rebba og alltaf var hann hress og þægilegur í öllu viðmóti. Aldrei voru nein vandamál á ferðinni, einungis verkefni að leysa. Eitt sumarið skutlaði ég honum frá Egilsstaðaflugvelli á Fáskrúðsfjörð á vélinni minni TF-DUK, þetta var síðdegis í kvöldkyrrðinni. Þar flugum við saman og virtum fyrir okkur fyrirheitnalandið okkar Austurland, baðað kvöldsólinni og aðeins glettnar gárur léku sér við sjóinn, annars hefðu austfirðirnir verið spegilsléttir. Á þessum tíma voru í lífi Rebba einungis léttar bárur, ekkert til að hafa áhyggjur af, eða það héldu allir.

Síðar skildu leiðir og hann varð flugmaður hjá Flugleiðum og síðan flugstjóri. Eina ferð fór ég með honum til London. Það var gaman að fá þetta sjónarhorn að sitja framm í og fylgjast með aðfluginu að Heatrow flugvelli seint um kvöld og virða fyrir sér ljósadýrð borgarinnar. Flugstjóri í þeirri ferð var Garðar Gíslason, en hann var flugstjóri á fyrstu farþegaþotunni sem lenti á nýjum Egilsstaðaflugvelli við vígsluna1993. Hann lést fyrir nokkrum árum.

Leiðir okkar Rebba lágu saman af og til, oftast á förnum vegi. Síðar áttum við saman sitt hvorn hlutinn í TF-KLO og lengi átti hann sér þann draum að geta notið þess að fljúga um og nýta sér þau forréttindi að sjá land sitt frá sjónarhorni fuglsins. Því miður rættist sá draumur hans ekki og stundirnar á flugvélinni urðu fáar og stopular.

Ég el með mér þann draum, að Rebbi fljúgi nú um í kyrrðinni og líti yfir sviðið og fái notið þess til fulls, sem hann missti af í þessari jarðvist.

Ég kveð Rebba með söknuði og votta fjöldkyldu hans, móður og systkinum alla mína samúð. Þau eiga minningu um góðan dreng með stórt hjarta, dreng sem vildi öllum vel, en lenti illilega utanvegar og komst ekki aftur inn á beinu brautina og var sjálfum sér vestur.

Vertu sæll kunningi.


Af hverju var ekki byrjað á erfiðustu köflunum?

Hvers vegna er búið að eyða svona miklu púðri í þá einföldu?

Hvað var þess valdandi að aðlögunarferlið var hafið á röngum enda?

Hvað verður gert við þau lög og reglur sem við erum búin að setja, ef slitnar upp úr samningsferlinu?

Verða einhver lög þá felld úr gildi?


mbl.is Opni erfiðustu kaflana sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínir menn taka slaginn......

.....gegn úrtöluliðinu með samsæriskenningarnar. 

Einar Benediktsson varar menn við, telur kínverja vera að leita að heppilegu hafnarstæði þegar norðurleiðin opnast.  Grímsstaðir á fjöllum kemur þar sterk inn að mati þessa fyrrverandi sendiherra þjóðarinnar. 

Jón Valur Jensson ofurbloggari stendur þessum sendiherra ekkert á sporði, telur kínverjana geti smyglað inn hlutum og búnaði til að setja upp stórfellda vopnaframleiðslu á Grímsstöðum og í framhaldinu náð undirtökum með vopnavaldi.

Það er ekki ónýtt að eiga svona ljósálfa, sem svífa um og sjá allt ljóslifandi, sem okkur hinum er gjörsamlega hulið.
mbl.is Stofnaðili að félagi um kaup á Grímsstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nábrók Samfylkingarinnar mátuð

„Árni Páll er að máta formannsbrækur, Katrín og Dagur eru nefnd, fleiri langar, margir þeirra hæfir. En formaðurinn heitir Jóhanna,“ segir Össur á dv.is í dag.

       

          Nábrókarstafur

Til að gjöra sér nábrók þá gjör samning við einhvern í lifandi lífi til að fá að nota skinnið af honum, dauðum. 
(Þ.e. að ganga frá þjóðinni dauðri með ósannindum að koma henni óbrotinni inn í ESB)


Þegar svo er komið far að næturþeli í kirkjugarðinn og graf hinn dauða upp. Flá síðan af honum skinnið, allt ofan frá mitti og niður úr í gegn, og lát það vera í smokk. Varast skal að gat komi á brókina. Þar næst far í brókina og verður hún þá óðar holdgróin
(Auðveldar ESB innlimunin í skjól myrkurs og með ósannindum að ekki sé uð aðlögunarferli að ræða, bara að „kikja í pakkana“).

Áður en brókin verður að notum, verður að stela pening af bláfátækri ekkju, á einhverri hinna þriggja stórhátíða ársins, á milli pistils og guðspjalls, og láta hann í pung nábrókarinnar ásamt stafnum.
(Þetta er auðvelt vegna aukinna skatta ríkisstjórnarinnar og svika bankakerfisins)

Eftir það munu brækurnar draga að sér fé af lifandi mönnum, svo aldrei verður pungurinn tómur.
(Fiskurinn í hafinu, vatnið okkar og orkan) Varast verður þó að taka þaðan peninginn þjófstolna. (Þetta verður hins vegar erfitt fyrir stjórnvöld)

Sá er annmarki með brækur þessar að sá er þær á getur ekki skilið þær við sig þegar hann vill,
(Ekki verður nokkurri þjóð úthýst úr ESB án þess að hún brjóti mjög alvarlega af sér) en á því ríður öll hans andleg heilsa að hann sé búinn að því áður en hann deyr, auk þess sem lík hans úir og grúir allt í lúsum, ef hann deyr í þeim. Því er eigandanum enginn annar kostur en að losa sig við brækurnar og verður hann að fá einhvern til að fara í þær af sér. Verður það með því eina móti gert að eigandinn fari fyrst úr hægri skálminni og jafnskjótt fari hinn er við þeim tekur í hana. Verður þá nábrókin óðar holdgróin. (Er Árni ekki tilbúinn?)

Náttúru sinni halda nábrækurnar mann fram að manni og slitna aldrei
. (Þar fór í verra).


Höfuðborg án flugvallar er bara þorp

Óskar Borg, innkaupastjóri Alcoa Fjarðaáls flutti á dögunum erindi á Hótel Héraði, en þar var fjallað um innanlandsflugið og stöðu Reykjavíkurflugvallar í því samhengi.  Óskar sagði það skipta miklu fyrir Alcoa að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á sínum stað og tíðni ferða milli þess flugvallar og Egilsstaðaflugvallarins væri mikil.

Hann benti á samning Alcoa við Flugfélag Íslands, sem  hafa aukið verulega framboð á flugsætum milli þessara staða. 

Agl.is fjallar um þetta:

„Það eru um 22 þúsund flugferðir farnar á vegum Fjarðaáls á hverju ári. Við höfum ekki einokað sæti heldur fjölgað þeim. Um helmingur ferða okkar er á dýrum fargjöldum“ sagði Óskar á ráðstefnu um innlandsflug sem haldin var á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Hann segir núverandi stöðu flugvallarins skipta máli fyrir greiðar samgöngur. „Höfuðborg án flugvallar er bara þorp. Við viljum geta komist til borgarinnar að morgni dags og til baka um kvöldið. Menn hafa um sex og hálfan tíma milli fluga og reyna að afgreiða nokkur erindi í hverri ferð því flugið er dýrt. Tíminn sem við hefðum myndi styttast niður í fjóra tíma ef völlurinn væri í Keflavík. Það er ekki nóg.“

Óskar segir að erlendir gestir sem heimsæki fyrirtækið séu almennt ánægðir með íslenska samgöngukerfið, utan eins staðar á Austurlandi.

„Við fáum til okkar 20-30 manns á viku, hvaðanæva úr heiminum. Þeir eru ánægðir með hversu smurt samgöngukerfi okkar er smurt, fyrir utan Oddskarðsgöngin. Það kemur ekkert í staðinn fyrir flugið. Það er hryggjarstykkið í almenningssamgöngum á landsbyggðinni.“

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband