Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Af túttujeppum.

Rakst á þessa frásögn á blogginu.  Tek mér það bessaleyfi að birta þetta hér, því ég gat ekki annað en skellt upp úr af og til við lestur greinarinnar.  Lagaði greininga lítillega með að draga  hana í sundur, öðru var ekki breytt.  Vona að mér fyrirgefist. 

Bloggarinn er Jón Bragi Sigurðsson og gef ég honum hér með orðið:

"Hef aldrei skilið þessa jeppadellu ekki minnst hjá þeim sem aka 99% innanbæjar. Í þau u.þ.b. 15 ár sem ég átti bíl (alltaf eindrifs bíl) á Íslandi get ég talið þau skipti á fingrum annarrar handar sem ég fann fyrir því að ég þyrfti á jeppa að halda.

Að aka stöðugt um á 2. tonna jeppa upphækkuðum með risatúttum, til þess að mæta þessum fáu tilfellum, fannst mér álíka gáfulegt og að ganga í klofstígvélum nr. 47 árið um kring uppá það að einhvern tíma komi hugsanlega upp sú staða að maður þurfi að vaða yfir á.  Áður fyrr var karlmennska á Íslandi gjarnan mæld í fjölda yfirvinnutíma en nú virðist hún vera mæld eftir stærð jeppadekkjanna og hæð ökutækis yfir sjávarmál.

Og þegar ég kem til Íslands í dag þá verður mér starsýnt á og vorkenni konunum sem þurfa að klöngrast upp í þessa hækkuðu jeppa. Það er álíka fyrirtæki og fyrir gröfumenn að komast uppí gröfur sínar, nema að konurnar eru auk þess með innkaupapoka og börn sem líka þurfa að komast uppí herlegheitin.

Get að vísu skilið þá sem ferðast mikið útum land, og þá sérstaklega að vetri, að þeim finnist öryggi í því að vera á fjórhjóladrifsbíl. Þeir láta að vísu betur að stjórn í hálku en hinir að öllu jöfnu en nútíma fólksbílar eins drifs með ABS, spólvörn og stöðugleikastýringu standa fjórhjóladrifsbílunum ekkert að baki hvað varðar öryggi í hálku. Þeir hafa líka þann kostinn að vera ekki eins háir og jepparnir þ.e.s. hafa lægri þyngdarpunkt sem er stór kostur ef eitthvað ber útaf.

Mér er í minni þegar ég kom í fyrsta skipti á vegum fyrirtækisins til Íslands fyrir nokkrum árum ásamt forstjóra þess og markaðsstjóra að heimsækja viðskiptavini okkar. Buðum við íslenskum uppá kvöldverð á Reykjarvíkurapóteki, dýrðlegan saltfisk og allt gott með það. Hins vegar var leiðin þangað, fótgangandi frá Sögu ekki sérlega greið á köflum vegna fjölda ”monsterjeppa” sem lagt var uppá gangstéttar og alla vega og hindruðu jafn vel sólarsýn á köflum. Þetta þótti erlendum gestum stórundarlegt.

Bæði parkeringskúltúrinn og þessir ógnar torfærutæki um allan miðbæ. Þeir voru ekki búnir að ná sér þegar við vorum sestir til borðs með gestum okkar og fóru að reyna að komast að því hvað þetta ætti að fyrirstilla en það varð heldur fátt um svör hjá íslenskum.

Eftirfarandi samtal átti sér þá stað:
Gestur: -Það er náttúrlega feikna mikill snjór hér í bænum á veturna og þess vegna þurfa menn þessa jeppa?
Íslendingur: -Nee, það er nú eiginlega aldrei snjór til trafala hér í bænum.
Gestur: -En menn þurfa náttúrlega að fara mikið útá land og þar eru náttúrlega ógnar vondir drulluvegir sem ekki eru færir fólksbílum?
Íslendingur (hálfmóðgaður): -Nei nei, allir helstu vegir eru malbikaðir og færir öllum bílum.
Gestur: En á veturna þá þurfa menn auðvitað að fara mikið útá land og þá eru vegirnir fullir af snjó?
Íslendingur: -Nee, þeir sem eiga þessa jeppa þurfa nú yfirleitt ekki að fara neitt mikið útá land. Og allir helstu vegir eru ruddir daglega þegar snjóar.
(Vandræðalega þögn þar til Íslendingur segir):
-En þegar menn fara uppá jökul, þá er gott að hafa svona jeppa.
Gestur: -Og hvaða erindi eiga menn þangað?!"
--------

Gleðilegt nýtt ár.

Enn verið að pissa í skóinn sinn.

Exel ofurmöppudýr ráðast enn á lífsgæðin.  Það er marg búið er að sýna fram á að það lækkar innkomuna að hækka skatta.  Það er ekki nægjanleg rök að fylla inn í Exel-skjal innkomuna á árunum á undan og trúa því að með innfærslunni einni saman streymi milljarðar í ríkiskassann.  Það er í besta falli barnaskapur að álykta slíkt, - í versta falli tóm heimska.

Hvernig virkaði þetta á áfengið? Þar höfum við borðleggjandi dæmi.  Viðskiptablaðið fjallaði um þetta í sumar:

"Það sem af er árinu 2010 hefur sala á áfengi dregist saman í lítrum talið um 7,8% miðað við sama tímabil árið 2009. Hefur salan minnkað í nær öllum flokkum áfengis en mismikið. Samdrátturinn hefur verið mest áberandi í sterkum og blönduðum drykkjum og dróst salan saman um 24% á milli ára og sala á blönduðum drykkjum hefur minnkað um tæp 36%. Sala á hvítvíni og rauðvíni hefur minnkað um 3,5 - 3,9% á milli ára þar sem af er ári. Þá hefur sala á bjór minnkað um tæp 8%."

Sjálfsbjargarviðleitnin er hins vegar söm við sig.  Nú brugga menn sem aldrei fyrr.

Verra er það í ferðageiranum.  Þar geta menn ekki "bruggað" fleiri ferðamenn.  Þeir hverfa bara og gjaleyririnn með.  Jafnframt er þetta aukaskattur á landsbyggðina, vegna þess að sá hópur þarf mest að nýta innanlandsflugið.  Þeir aðrir sem nýta það flug, eru gjarnan í vinnutengdri ferð,  á einn eða annan hátt.  Sá kostnaður fellur á þann sem er að kaupa þjónustuna, - oftast einstaklingar og/eða fyrirtæki á landsbyggðinni.  Þetta legst síðan ofan á annan kostnað þar og er þar af leiðandi síst hvetjandi til að reka fyrirtæki og veita fjölbreytta þjónustu á landsbyggðinni.

Er þetta það sem núverandi ríkisstjórn vill sjá?  Þessar álögur er ávísun á frekari samdrátt á landsbyggðinni?  Höfum við efni á því? 


mbl.is Skattar hækka um milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já.... - Menn geta ennþá leikið sér.

Það er ljóst að hjá sumum í þjóðfélaginu er enn 2007 á dagatalinu.  Það er verið að draga saman úti í samfélaginu, hagræða og segja upp fólki í heilsugeiranum.

Í þessum geira þarf hins vegar ekki að spara.  Það er hins vegar morgunljóst að innkoman verður aldrei það mikil að ekki þurfi að borga hátt í milljarð á ári, til að geta rekið þennan "glamour". 

Til þess að það sé hægt þarf að kafa í vasa skattborganna, ekki bara í höfuðborginni, heldur allra landsmanna.  Þá skiptir ekki máli hvort vægið er jafnt að aðgenginu, einungis að vægið sé jafnt þegar komið er að því að kjósa til Alþingis.

Svona er nú margt skrítið í innantómum kýrhausum við höfnina.
mbl.is 600 tonnum af stálsteypukubbum skipt út í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

....og svo á að fara að byggja stórhýsi við Hringbraut.....

....fyrir milljarða.    Er þetta ekki fjármunir úr sömu tómu buddunni?

Er þingmenn ekki tengdir út úr Alþingi við fólkið í landinu? 

Hvernig væri að spara á Alþingi?  Hægt að fækka þingmönnum verulega, svo ekki sé minnst á að minnka stórlega líkurnar á að eftirfarandi sé stöðugt að endurtaka sig:

"Þeim verr gerast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman"  

Sjá einnig sparnað í háskólasamfélaginu hér ögn nerðar í fyrri færslum.


mbl.is „Komin að endimörkum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólahugleiðing frúarinnar.....

....um sambúð okkar, settar á þrykk fyrir þessi jól.  Hér má lesa hennar útgáfu á framkvæmdagleði undirritaðs:

Ég “á “ alveg dæmalaust duglegan mann, það eru engar ýkjur. Það má kannski orða það svo að hann sé þúsundþjalasmiður. Og hann vindur sér yfirleitt í hlutina þ.e.a. s.þegar hann er búinn að hugsa það út hvernig best sé að nálgast verkið. Og þá gengur það líka, ja maður minn.

Oft á tíðum veldur  þetta “hugsað til enda stig” mér  angri, en það er sennilega vegna þess að ég er í tvíburamerkinu og þar af leiðandi hentar mér betur að hlutirnir séu framkvæmdir strax , og þá á ég við á stundinni..án mikillar umhugsunar. Þarna greinir okkur á.

Jólin og undirbúiningur þeirra hafa í gegnum tíðina verið nokkuð stessandi í okkar búskap, svo ekki sé meira sagt. Þarna á ég við að eins og sönnum Íslendingum sæmir þá höfum við hjónakornin oft og iðulega “brasast” eitthvað “smotteri” fyrir blessuð  jólin.

Minn elskulegi eiginmaður hefur til dæmis átt það til eftir vandlega íhugun að skvera upp stiga innanhúss svona rétt áður en klukkurnar hringja inn hátíðina.

Einu sinni tók hann sig til og lakkaði öll gólf  seint á þorláksmessukvöld. Samkvæmt leiðbeiningum átti gólfið  að vera orðið snertiþurrt  um hádegisbil á aðfangadag en  þar sem verkið dróst eitthvað fram eftir nóttu þá varð fallega gólfið okkar ekki “gangþurrt” fyrr en vel var liðið á daginn. Það hefði verið gaman ef við ættum í fórum okkar myndbandsupptöku af því þegar við sveifluðum okkur og strákunum okkar þremur fimlega á milli herbergja. Þið getið samt ekki trúað hve glöð og stolt við vorum á aðfangadagskvöld þegar við gengum um á sparisokkunum á stíflökkuðu, gólfinu☺

Rauður er litur jólanna og þess vegna var það ósköp eðlilegt að okkur langaði til þess að” flikka” upp á gamla litla ískápinn okkar fyrir ein jólin. Þetta árið hafði mér tekist að ná hamrinum af mínum manni á fyrra fallinu þannig að staðan á þorláksmessukvöld var bara góð. Í þetta skipti var dúkur á ölllum gófum og ég búin að bóna hvern krók og kima í íbúðinni. Jólaskrautið var komið á sinn stað og litlu drengirnir okkar þrír sofnaðir í jólanáttfötunum sínum. “Allt “ var tilbúið fyrir hina miklu hátíð.

Eins og fyrr sagði þá er rauður litur jólanna og þegar við stóðum nú þarna og glöddumst yfir tilveru okkar þá læddist allt í einu að okkur óstöðvandi þrá eftir að fullkomna verkið. Ekki kann ég að greina frá því hvort okkar það var sem allt í einu fann hve nauðsynlegt það var að klæða gamla ískápinn okkar í rauðan búning en fyrir einskæra tilviljun þá átti minn elskulegi eiginmaður spreybrúsa og það tvo fyrir einn sem voru sneisafullir að rauðu lakki. Eins og  hendi væri veifað var sá gamli drifinn fram á gólfið og áður en langt um leið hafði hann verið færður í þennan yndislega lit jólanna. Við horfðum með stolti á þann gamla sem var eins og nýr. Nú gátum við gengið til hvílu þreytt en sæl með  vel heppnaða framkvæmd….eða það héldum við.

Þegar út úr eldhúsinu var komið brá okkur heldur betur í brún vegna þess að það var eins og  lámóða lægi yfir allri stofunni  sem skömmu áður hafði glansað af glæsileik. Hvert sem litið var lá rauður salli yfir öllu, litur jólanna að vísu en við höfðum nú ekki ætlað honum að hylja bæði hólf og gólf.

Ykkur að segja þá entist sá gamli rauði okkur lengi og minnti okkur á að það er ekkert voðalega snjallt að beita “spreybrúsa”  á miðju endhússgólfi þegar jólin eru handan við hornið.


Svo mörg voru þau orð. 

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.

 

 


Er þörf fyrir svona mikla háskólamenntun?

Hvernig væri að staldra aðeins við? 

Væri ekki rétt að fara að skilgreina þörfina fyrir háskólamenntað fólk? 

Er orðin offramleiðsla í þessum geira? 

Hvers vegna flytja svo margir utan, sem lokið hafa langskólanámi? 

Er ekki eitthvað að skólakerfinu og skipulaginu þegar við menntum unga fólkið úr landi? 

Íslendingar eru um 318 þúsund, þurfum við tug háskóla?

Skólagjöldin eiga að vera há, og endurgreiðast þegar viðkomandi hefur fengið vinnu á Íslandi, við hæfi menntunar sinnar.


mbl.is Styður hækkun skrásetningargjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæru þingmenn, er ekki allt í lagi hjá ykkur?

Eru það ekki peningar úr sömu buddunni, - fé til framkvæmda og reksturs?

Það er verið að skera niður heilbrigðisstofnanir um allt land.  Þið teljið okkur trú um að  við höfum ekki efni á velferðarþjóðfélaginu, sem við höfum þó í mörg ár verið að byggja upp. 

Hvernig höfum við þá efni á að standa í milljarðaframkvæmd? 

Við erum að mennta lækna og sjúkraliða, en höfum ekki efni á að borga þeim laun.  Þessi hópur flytur því úr landi.

Hvers vegna að byggja yfir starfsemi sem er takmörkuð á landinu? 

Hvers vegna að mennta svona marga, - sem flytja síðan úr landi?

Hver er virðisaukinn í slíkri menntun?

Er ekki verið að byrja á vitlausum enda? 

Hvernig væri að skilgreina þörfina fyrir menntun og finna hvaða menntun hentar best við íslenskar aðstæður. 

Magn, gæði og þörf verður hér að haldast í hendur.


mbl.is Forhönnun í fullum gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við höfum ekki lengur efni á ótengdum alþingismönnum.

Þess vegna þarf nýja hugsun í samfélagið. 

1. Breyta þarf innheimtu skattanna í þann farveg, að bæjar- og sveitarfélög innheimta alla lögboðna skatta af sínum þegnum. 

2. Það verði á ábyrgð bæjar- og sveitarfélaga að greiða í sameiginlegan sjóð sömu krónutöluna skv. höfðatölureglu, óháð stærð sveitarfélagsins. 

3. Sameiginlegi sjóðurinn væri eingöngu notaður til að reka löggjafavaldið, - Alþingi. 

4. Þingmönnum verði fækkað í fimmtán.  

5. Kjördæmin sjálf stæðu straum af kosnaði sinna þingmanna og aðstoðamanna. 

6. Framkvæmdavaldið verði flutt heim í hérað, - nær vettvangi íbúanna. 

7. Fækka háskólum niður í einn

8. Hætta að mennta fólk úr landi, koma á virkri menntastefnu sem nýttist landinu betur

9. Skera niður stofnanir og þær sem ekki beinlínis þurfa að vera í Reykjavík, - verði fluttar út á land

10. Nýtt bæjarfélag taki við af Reykjavík sem höfuðborg Íslands, - t.d. Egilsstaðir.


mbl.is Þörf á að endurskoða stuðning hins opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litli leikklúbburinn kominn af stað aftur.

Stórkostleg sýning átti sér stað, þegar þurfti að lengja flugvöllinn á Akureyri og voru blaðamenn með í liði þerra um að segja látlaust frá vandræðum, sem áttu sér stað á Akureyrarflugvellli vegna þess hve stuttur hann var, - að mati heimamanna.  Því til sönnunar, var sett upp leikrit við að flytja út fisk frá flugvellinum með AN-12 flugvélum, sem þurftu langa braut til flugtaks.  Auðvitað gleypti Kristján Möller þáverandi samgönguráðherra þetta hrátt, enda Ejafjörður þungaviktasvæði til áframhaldandi setu á Alþingi.

Nú er nýtt stykki komið á fjalirnar hjá þeim í Eyjafirði.  Ekki stendur á blaðamönnum mbl.is að taka þátt í leiknum.  Nú er Víkurskarð ófært sem aldrei fyrr og stöðugur fréttaflutningur um bíla sem eru fastir þar.  Ekki er minnst lengur á þörfina á að grafa göng til Norðfjarðar, en þar er aðalsjúkrahús austfirðinga.  Þau göng eru tilbúin til útboðs og hafa verið um all langan tíma.  Ekki vantar að fv. samgönguráðherra var ítrekað búinn að gefa góð orð um að hafist yrið fljótlega handa við þá framkvæmd.  Ekki verður af þeirri framkvæmd í bráð.

Kristján Möller er auðvitað að hugsa um atkvæði sín.  Þau eru mun fleiri í Eyjafirði og því mega aðrir éta það sem úti frís.  Það er lítið að marka það sem stjórnmálamenn segja rétt fyrir kosningar.  Ljóst er að pótitíkin fer í manngreinaálit eftir vægi kjósenda.  Því fleiri atkvæði, því ríkari ástæða er að moka fjármagni í þau svæði sem hafa marga kjósendur.  Það auðveldar atkvæðasmölunina á kjördag.


mbl.is Festu bíl í Víkurskarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband