Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Flugferð í blíðunni.

DSC04528Síðdegegis var TF-KLO dregin úr skýli, vegna þess að það nálgast guðlast að nýta sér ekki blíðu eins og í dag til flugs.  Farið var í loftið á braut 22 á Egilsstöðum og stefnan tekin út Héraðið og flogið með Dyrfjöllunum, niður í Njarðvík og teknir nokkrir hringir yfir Borgarfirði-Ey. 

Þaðan var ströndin rakin til Seyðisfjarðar og eftir nokkra dól þar, var klifrað upp úr þessum firði með aldamótarbænum og stefnan tekin til Hérað aftur.  Flogið var lágt yfir Fjarðarheiði og dýrð Héraðsins blasti við fyrr en varði.

Það var lækkað undan vindi fyrir braut 22 og við Tókastaði var beygt inn á langa lokastefnu.

Stutt ferð en frábær í yndislegu vetrarveðri, - eins og það gerist best á Íslandi. 


Björn Bjarnason og Schengen.

Í einni partýferðinni til Evróðu samþykktu ráðherrar sjálfstæðisflokksins og kratanna, að Ísland myndi gerast aðili að Schengen.  Þetta kostar talsverðar upphæðir í uppbyggingu á ytri landamærum Evrópu og rekstur, svo nemur mörgum milljörðum. 

Nokkur styrr hefur staðið undanfarið um framkvæmdina við að gæta þessara landamæra og sýsluembættið fær ekki það fjarmagn sem það telur sig þurfa til að halda uppi þessari gæslu. En stærðfræðitröllið Björn Bjarnason hefur að sjálfsögðu pottþétta lausn á vandanurm, nefnilega að skipta embættinu upp í þrjár einingar.  Flestir aðrir ná fram hagræðingu með sameiningu, - en það er að sjálfsögðu allt annað mál.

Nokkur atriði vefjast hins vegar eitthvað fyrir Birni Bjarnasyni, m.a. að það er ekki við embætti sýslumanns að sakas vegna þessara verkefna.

A. Ríkistjórnin er ábyrg fyrir Schengensamningnum, ekki sýslumannsembættið.

B. Ríkistjórnin ber ábyrgð á að mannskapur sé tiltækur til að uppfylla samninga vegna Schengen.

C. Ríkistjórnin er ábyrg fyrir því að til staðar sé þjálfaður mannskapur, svo hægt sé að standa við samninga ríkisstjórnarinnar vegna Schengen.

D. Ríkistjórnin ber ábyrgð á að fjármagn renni með eðlilegum hætti til sýsluembættisins, vegna samninga sem ríkistjórnin gerði.

Björn Bjarnason er á billegan hátt að reyna að fría sig ábyrgðinni, með því að segja "...ekki benda á mig!!".  Að fara að skipta embættinu upp, er bara til að drepa málinu á dreif og fela getuleysi ráðherrans og örvæntingu, við að leysa þetta mál á eðlilegan og farsælan hátt.


Þarf að skipta um menn í brúnni?

Hvað er í gangi í seðlabankanum?  Það virðast flestir sammála um það að aðgerðir ráðamanna þar séu fálmkenndar og gamaldags. 

Er ekki tími til kominn að skipta um menn í brúnni?
mbl.is Alvarleg staða efnahagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skutum Reykvíkingum ref fyrir rass.

Síðastliðinn laugardag var tekinn í notkun nýr komusalur á Egilsstaðaflugvelli.  Flugstöðin er nú orðin ein sú besta á landinu, þó ekki komist hún með hælana þar sem flugstöðin í Keflavík hefur hælana.  Landi og þjóð til sóma.  Til hamingju austfirðingar!!

Kofaþyrpingin (flugstöðin??) á Reykjavíkurflugvelli, sem hefur mátt muna sinn fífil fegurri, er hins vegar íbúum borgarinnar til háðungar og borgaryfirvöldum til háborinnar skammar.  Nú er sem betur fer í sigti, langþráðar endurbætur á húsakosti flugvallarins, svo kinnroðalaus verði hægt að bjóða erlendum og innlendum gestum að fara þar um.

Kofaást nokkurra borgarbúa er að verða viðvarandi vandamál inn í framtíðina í höfuðborg okkar.  Samkvæmt fréttum, standa 57 hús auð og yfirgefin í miðborginni, samt er hrópað á land í Vatnsmýrinni undir frekari byggð.

Er ekki tími til að þetta fólk eyði kröftum sínum í að hlúa að miðbænum í stað þess að vera með óraunhæfar kröfur um að flugvöllurinn víki.  Það vita allir hugsandi menn að óbreytt ástand í Vatnsmýrinn mun vara um langa framtíð.

Lengri flugbraut.....

....í framhaldinu og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á svæðið og þá eru hlutirnir í góðum málum.   


mbl.is Nýr komusalur tekinn í notkun í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru ekki bara Nigeríubréfin sem eru vafasöm.

Stöðugt er maður að fá hringingu eða inn um bréfalúguna detta tilboð frá bókaforlögum, bönkum, tryggingafélögum, kortafyrirtækjum, símafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum, sem eru með í gangi "ómótstæðileg" tilboð sem viðtakanda er ómögulegt að hafna, - að mati sendanda.

Dæmi:

"Fáðu bók frítt".
 
"Já takk", - en þetta er ekki svona einfalt.  Þú þarft að kaupa einhverjar bækur til þess að fá bókina frítt, a.m.k. fá einhvern í heimsókn til að kynna starfsemi og útgáfu forlagsins.

"Hringdu frítt í vini og vandamenn"

"Já takk", - en þetta er ekki svona einfalt.  Það þarf að samþykkja að fá eða senda auglýsingu með hverju SMS, - í staðinn.

Allir hafa fengið tilboð frá bönkum um E-kort.  Þar eiga menn að fá pening inn á kortið í takt við viðskipti við valin fyrirtæki.  Þetta ést rúmlega upp með öðrum álögum bankanna af viðkomandi kortareikningi.

Þetta er mjög einfalt hjá mér.  Hringi eitthvað fyrirtæki í mig með "ómótstæðilegt" tilboð, veit ég að viðkomandi er að reyna að hafa af mér fé.  Ég velti því ekki fyrir mér hvernig þeir eru að reyna að féfletta mig, en reynslan segir mér að ég hef rétt fyrir mér og ég afþakka pent.
mbl.is Ríkislögreglustjóri varar við svikapósti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG og umhverfisráðherrann.

Ekki kemur á óvart að söfnuður VG skuli ekki vera glaður með þessa afgreiðslu umhverfisráðherra.  Minnug þeirrar geðshræringar sem umræddur ráðherra var oftast í, sem óbreittur þingmaður, í umræðunni um Kárahnjúkvirkjun og heitingar um skemmdarstarfsemi á verðmætu og einstöku landsvæði. 

Hvað varðar loforð þingmanna og ráðherra, hvort sem þeir eru innan eða utan Samfylkingarinnar, þá eru landslög þeim loforðum æðri, hvor sem VG eða öðrum, - líkar betur eða verr. 

Svona virka lögin og lýðræðið, þó stöku ráðherra gangi illa að skilja það og vinna eftir þeim leikreglum.  Nefni í því sambandi settan dómsmálaráðherra og hæpna ráðningu hans í embætti dómara á Akureyri.
mbl.is VG harmar ákvörðun umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VW árgerð 1950 og stripparinn

Árið er 1958. Ég er sjö ára patti og man enn eftir hversu mér fannst æðisleg útfærsla var á stefnuljósunum á gamla VW árgerð 1950.  Það var armur í dyrastafnum sem slóst út, þegar bílstjórinn gaf til kynna að hann ætlaði að beygja til hægri eða vinstri.  Ljós var í þessum búnaði til að sjá hvað var í gangi í myrkri.  Afurglugginn var líka tvískiptur og rosalega sportlegur afturendinn.

Árið er 2008.  Ég er staddur á Canarí.  Þar fórum við hjónin í gönguferð frá vitanum á ensku ströndinni og upp í bæ (Maspalomas).  Þetta er nokkur ganga um flotta strönd og mismunandi flokkuð svæði fyrir sóldýrkendur.  Á leið okkar sáum við að nokkur svæði voru fyrir dýrkendur sól- og sjóbaða, - án fata.  Þarna kenndi ýmissa grasa og allar gerðir af "tólum" voru þar til sýnis gestum og gangandi. 

Allt í einu vorum við á eftir spengilegum strippara á að giska árgerð 1950.  Sportlegur afturendinn var eins og á sömu árgerð og VW bjöllu, ávalur og finn, en það vantaði tvöfalda gluggann á þann fyrrnefnda.  Annað bætti upp þá vöntun, nefnilega æðislega útfærslan á stefniljóabúnaðinum.  Þegar stripparinn gekk, kom reglulega í ljós jafnaldri hans og fermingabróðir.  Munurinn á þessum og VW ágerð1950 að stripparinn gaf merki viðstöðulaust hægri, vinstri þó stefnan væri að mestu beint áfram.

Konurnar voru ekkert að fela heldur.  Athygli vakti þó að þær voru flestar í eldri kantinum og ekki eins mikið augnayndi lengur.  Þær yngri virtust vilja hafa sinn líkama fyrir sig, og það er gott og blessað.  Einni þroskaðri og fallegri frauku mættum við, en hún og var hún komin af léttasta skeiði og rúmlega það.  Hún þurfti ekkert að fela, það sem ekki var í felum inni í fellingunum var stöðugt í hvarfi þegar brjóstin sveifluðust fyrir. 

En svona getur lífið nú verið margslungið og skemmtilegt.

Kominn frá Canarí.

 Þá er maður kominn heim eftir velheppnaða ferð til Canarí, - í kuldann og trekkinn.  Veðrið var að okkar mati yndislegt, þó "infæddir" íslendingar á svæðinu fyndist það ekkert sérstakt.  Hitinn var þó alla dagana um +20°C (+ - 5°C).  Hentaði vel fyrir okkur.  

Við hjónin vorum á Hótel Neptuno, sem státar af fjórum stjörnum og liggur miðsvæðis og stutt í allar áttir.  Við eyddum dögunum að liggja í leti og slappa af, ef ekki í garði hótelsins þá á ströndinni.  Fínt hótel, góður matur og frábært starfsfólk.  Það sama má segja um starfsfókið hjá ferðaskrifstofunni Sumarferðir, - allir gerðu sitt besta. 

Einn daginn slógust við í hóp manna og kvenna, sem fór til Tenerife.  Við skoðuðum þá eyju í sjónhendingu og komum heim þreytt og ánægð eftir velheppnaða ferð.  Á ferjunni á milli eyjanna var smá bræla og þrátt fyrir sjóveiki samferðamanna okkar bar ekkert á þeirri sýki hjá okkur landkröbbunum.

Einn daginn leigðum við flugvél, Gummi frændi og ég.  Frúin sólaði sig á meðan við sundlaugina.  Vélin var Piper Archer, Domingo var capitan og ég var copilot.  Flogið var umhverfis eyjuna í 1500 fetum á 57 mínútum, mögnuð upplifun.  Þessi eyja er talsvert minni en sveitarfélagið Fljótsdalshérað, á Canarí búa um 800.000 manns á meðan við fljótsdælingar erum rétt rúmlega 3.000 manns.

Næst síðasta daginn leigðum við hjónin okkur bíl og stefndum á fjöllin.  Það var meiriháttar ferð.  Að skoða safn um frumbyggjana var fræðandi, skoða staðsetningu húsa nútímamannsins upp um hlíðar og fjöll, var áhugavert. Að keyra um þrönga vegi utan í klettunum, skoða hellana, sem fólk lifði í fyrr á öldum og fá sér snarl á veitingastað, sem höggvinn var inn í bergið, var stórfenglegt.  Magnað að upplifa, að nútímamaðurinn býr enn í hellum á svæðinu og sjá andstæðurnar, hellar sem íverustaður og flottir bílar fyrir utan. 

Ferðin út var með Icelandair og fór ágætlega um okkur "umhverfisvæna" fólkið.  Heimferðin var með Futura og þar var greinilega ekki gert ráð fyrir "oversize" fólki.  Við fengu að vísu lökustu sætin, á aftasta bekk, ekki hægt að stilla hallan á sætisbökunum og hnén voru í bakinu á næsta manni.  Á leiðinni heim frá Reykjavík, leið okkur eins og á "Saga Class" þvílíkt var fótrýmið í gamla Fokker. 

Við heimkomuna til Keflavíkur, gistum við eina nótt á Hótel Keflavík.  Það var fjögurra stjörnu hótel eins og það sem við gistum í á Canarí.  Það er greinilegt að standardinn hjá okkur er mun hærri á herbergjunum og ætti munurinn að vera tvær stjörnur,  Hótel Keflavík í hag.

Það er alltaf gott að komast heim í sitt eigið umhverfi, þó ég hafi átt gott og langþráð frí með spúsu minni á Canarí.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband