Hin vitlausa árlega klukku umræða, -kræst.

Nú er komið að hinni árlegu umræðu að færa klukkuna aftur um eina klukkustund.  Þannig hefur þetta verið í mörg ár og þannig verður þetta í einhver ár enn.

Hvar er hægt að finna það að líkamsklukkan þurfi færslu?  Er líkamsklukkunni ekki nákvæmlega sama hvort klukkan stendur á 12, 13, 14, 144 eða eitthvað allt annað?  

Þar sem klukkunni er breytt, fer stór hluti samfélagsins úr skorðum vegna þess að fólk er utan við sig og fylgist ekki nægjanlega með.  Það er að mæta á vitlausum tíma í vinnuna, skólabörn ruglast  í ríminu, samgöngukerfin fara úr skorðum og svona mætti áfram telja.

Við þessar breytingar hrökkva alltaf einhverjir Íslendingar upp og heimta sömu aðgerðir hér.  Þeir skilja illa að við færðum fram klukkuna 1968 og höfum síðan þá keyrt á sumartíma.  Með því að færa sumartíma enn frekar fram, erum við að rugla baugstímann um tvær klukkustundir.

Þeir sem eru svona þjakaðir af þessum tímamismun ættu frekar að beina kröftum sínum að því að koma á sveigjanlegum vinnutíma og uppfæra samninga í samhengi við það.  Það á ekki vera trúarathöfn að vakna klukkan 08:00 og mæta í vinnuna klukkan 09:00 þegar hægt er að fara á fætur klukkan 07:00 og vera komin í vinnustöð klukkan 08:00.  Á mörgum vinnustöðum er mjög auðvelt að vera með breytilegan vinnutíma á meðan aðrir vinnustaðir geta það ekki.  En það er hvort eð er ekki hægt gera svo öllum líki.

Í sjálfu sér skiptir ekki sköpum að breyta klukkunni, - en það skiptir enn minna máli að gera það ekki.

Nútíma samfélag er njörfað niður í tíma og tímasetningar.  Allt samfélagið er klukkuverk þar sem tími er hluti af stoðkerfi og skipulagi.   Kjarasamningar eru rígbundnir við tíma.  Opnunartímar banka eru rígbundnir við tíma.  Samgöngur eru rígbundnar við tíma.  Skólar eru rígbundnir við tíma. Þetta eru bara nokkur dæmi.  Þess vegna er óráðlegt að rugla fram og til baka með tímann.

Tímalega væri nær að vera meira sveigjanleika. Það væri hægt að vinna með tímann klukkustund seinna eða fyrr, án þess að allir breyti klukkunni tvisvar á ári með tilheyrandi rugli dagana á eftir, á heimilinu, í vinnunni, í skólanum og í samgöngum. 

Það er hins vegar vísindalega sannað, að vera með i-Padinn eða tölvuni í rúminu langt fram á nótt, ruglar notandann mun meira í ríminu en hæð sólar í hádegisstað. 

Við eigum ekki að vera þrælar klukkunnar.  Við verðum að læra að vinna með tímann og klukkan á að vera leiðbeinandi viðmiðun, - ekki yfirþyrmandi ógn.

Og svo menn átti síg á einfaldri staðreynd. Klukkan (tímaeiningin) er mannanna verk, ekki náttúrulögmál.


mbl.is „Klukkan okkar er vitlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Svo innilega sammála.

Góð færsla.

Sigurður Kristján Hjaltested, 26.10.2017 kl. 00:26

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er kannski ekki endilega ástæða til að breyta klukkunni.

En það mætti samt alveg færa byrjunartíma vinnudagsins eitthvað fram yfir kl. 7:00.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.10.2017 kl. 01:05

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta bull um klukkuna er alveg óþolandi. Það breytir engu hvernig við stillum klukkuna, það verður alltaf jafn erfitt að vakna að morgni, ef seint er farið að sofa að kvöldi. Sól og himintungl breyta þar engu, enda sólargangur stórann hluta árs hér á landi þannig að hvoru tveggja, upphaf svefns og vöknun af svefni, er utan sólar.

Að færa vinnutíma til svo hann hefjist seinna en kl.7:00 er jafn vitlaus hugmynd, enda upphaf vinnutíma mismunandi eftir vinnustöðum. Sjálfur mæti ég til vinnu kl.6:30 að morgni eina vikuna og á sama tíma að kvöldi aðra. Vinn sem sagt vaktavinnu. Hvenær vaktin byrjar skiptir ekki máli, heldur hitt hvort ég hafi vit á að drulla mér í bælið tímanlega, svo ég fái þann svefn sem ég þarf. Þar breytir klukkan engu og enn síður himintunglin.

Hitt er svo aftur sjónarmið, að sumir vilja færa klukkuna nær þeim tíma erlendis, sem viðskiptavinir og ættingjar þar búa við. Því gæti ég vel sætt mig við að færa klukkuna hér nær Amerískum tíma. Kannski verra fyrir þá sem stunda viðskipti eða eiga ættingja í Ástralíu!

Gunnar Heiðarsson, 26.10.2017 kl. 08:30

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Benedikt,

Hef búið við klukku hringl í yfir tuttugu ár og á varla eftir að venjast því úr þessu.  En klukkan á Íslandi er hálfum öðrum tíma á eftir sólinni.  Ísland notar GMT þó það sé 15 gráðum vestan við Greenwich.  Það er klukkuskekkja, sem auðvelt er að laga með því að flýta klukkunni um eina klukkustundir í eitt skipti fyrir öll.

Kveðja

Arnór Baldvinsson, 26.10.2017 kl. 14:14

5 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Sigurður Kristján.  Þakka innlitið og jákvætt innlegg.

Benedikt V. Warén, 26.10.2017 kl. 15:31

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Guðmundur. Þakka innlitið. 

Fleira hangir á spýtunni að hafa breytilegan vinnutíma, þar sem því verður við komið, sérstaklega í Reykjavík.  Allir eru að fara í vinnu á sama tíma og síðan eru allir að koma heim til sín síðdegis á sama tímabili. 

Við að hafa frjálsari útfærslu á vinnutíma, væri hægt að létta á umferðinni og ekki þyrfti að hugsa í milljónaframkvæmdum að sinni, um mislæg gatnamót á Miklumýrarbrautinni (Miklubraut/Kringlumýrabraut).  Ef hægt væri að dreifa umferðinni á eina og hálfa klukkustund, kvölds og morgna, væri lífið miklu auðveldara fyrir íbúa borgarinnar.

Benedikt V. Warén, 26.10.2017 kl. 15:38

7 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þakka þér Gunnar.

"Að færa vinnutíma til svo hann hefjist seinna en kl.7:00 er jafn vitlaus hugmynd, enda upphaf vinnutíma mismunandi eftir vinnustöðum."

Ég er ekki alveg með á nótunum hvað þú ert að fara, en vísa í svar til Guðmundar #6 hér að ofan.  Flestir eru á ferðinni á sama tíma og það sanna umferðartafirnar í Reykjavík hvern virkan dag.

Sjálfur vann ég í Reykjavík og gat ég valið um að mæta klukkan 07:00 og þá ferðaðist maður um nær tómar götur.

Benedikt V. Warén, 26.10.2017 kl. 15:55

8 Smámynd: Benedikt V. Warén

Sæll Arnór.  Þakka þér þína færslu.

Hvað varðar klukkuna, munar hálftíma á klukkunni á Egilsstöðum og Vatnsleysuströndinni, þar sem við austanlands, erum á undan, svo hjá okkur er munurinn minni.  Fyrir mína parta skiptir engu hvað klukkan er, var eða verður, - svo framarlega að ekki sé verið að hringla fram og til baka í klukkunni.

Hef stundum orðað það þannig, að best sé fyrir klukkuþrælana að búa í gluggalausu rými og stilla klukkuna eins og þeir vilja og hafa dag og nótt eftir sínu eigin tímatali.  Þetta var gert við hænur til að auka nytina úr þeim, að stytta tímann á milli birtu og dimmu og láta þær verpa tvisvar á sólahring.

Benedikt V. Warén, 26.10.2017 kl. 15:56

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Benedikt.

Það sem ég á við með að breyta vinnutíma, til að vinna gegn- eða með klukkunni er arfavitlaus hugmynd, kemur alls ekkert breytingu klukkunnar við. Hins vegar geta önnur rök mælt með breytilegum vinnutíma. Hitt vita allir að vinnutími byrjar ekki kl. 7:00 hjá öllum. Er breytilegur milli fyrirtækja.

Vissulega er umferðaþungi í Reykjavík mikill á ákveðnum tímum og hugsanlega mætti dreifa enn freka upphafi vinnutíma til að jafna þann þunga. Það kemur breytingu á klukkunni ekkert við. Ef henni er breytt færist sá umferðaþungi einungis til sem þeirri breytingu nemur.

Þá er rétt að ítreka að fjöldi fólks, mun fleira en flestir ætla, vinna vaktavinnu. Má þar t.d. nefna þær þúsundir starfsfólks sem starfar við heilbrigðiskerfið. Fyrir vaktavinnufólk er breyting klukkunnar eitthvað sem það á erfitt með að meðtaka. Eðli vinnunnar gerir síðan af verkum að breytilegur vinnutími er norm hjá slíku fólki.

Svo vil ég taka undir með þér að þegar þessi umræða byrjar, þ.e. breyting klukkunnar,  "kræst"!.

Gunnar Heiðarsson, 27.10.2017 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband